Fyrning sakar hefur þau áhrif að lögum að ríkisvaldið glatar rétti til að krefjast þess að brotamaður sæti refsingu eða öðrum viðurlögum fyrir brot sín. Sök brotamanns í refsiréttarlegum skilningi er þá fyrnd og verður hann þar af leiðandi ekki sakfelldur fyrir háttsemi sína. Tilganginn að baki fyrningar sakar má helst rekja til þjóðfélagslegra hagsmuna. Þjóðfélagslegir hagsmunir krefjast síður aðgerða af hálfu hins opinbera ef langt er liðið frá broti þar sem tíminn dregur úr refsiþörf. Talið er að það fari í bága við allsherjarreglu að einstaklingur þurfti sífellt að eiga hættu á því að verða ákærður fyrir refsiverðan verknað sinn og sæta í kjölfar refsingu. Slíkt getur valdið gríðarlegri röskun í lífi manns, einkum ef hinn brotlegi hefur...